Hvað er Jafnlaunavottun?

Árið 2008 hófst vinna sem endaði í því að jafnlaunastaðallinn ÍST85:2012 varð til. Jafnlaunastaðall sem byggður var á grunni þekktra alþjóðlegra stjórnunar- og gæðastaðla eins og ISO9001 og ISO14001.

Til að byrja með var staðallinn valkvæður, þ.e. fyrirtæki og stofnanir gátu innleitt jafnlaunakerfi að eigin frumkvæði til þess bæði að sýna að launajafnrétti væri þeim mikilvægt en líka til þess að gæta þess að launaákvarðanir væru teknar með sama hætti fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Það var svo í júní árið 2017 sem jafnlaunavottun var fest í lög. 7. grein laga um jafnastöðu og jafnan rétt kynjanna (nr. 150/2020) sem tóku gildi 29. desember 2020 staðfeta að jafnlaunavottun skuli byggja á jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012.

Markmið laganna “er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins” (1. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna). Þó jafnlaunavottun sé ekki tól sem gengur úr skugga um að allt fólk sé með nákvæmlega sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæta vinnu, þá býr hún til jafnlaunakerfi sem snýst um að launaákvarðanir séu teknar út frá sömu forsendum og að fólk í sömu eða jafnverðmætum störfum hafi sömu tækifæri til launa og annarra kjara.

Með jafnlaunakerfi getum við því skoðað hvernig launaákvarðanir eru teknar innanhúss hjá okkur, hvernig laun dreifast á milli starfa og kynja og unnið að því að leiðrétta óútskýrðan launamun, ef hann er til staðar.

Hvenær eigum við að vera komin með vottun?

Samkvæmt lögunum eiga allar rekstrarheildir (fyrirtæki og stofnanir) sem eru með 25 eða fleiri í starfi að fá jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu.

Þann 31. desember 2022 eiga allir aðilar á markaði sem hafa 25 eða fleiri starfandi að jafnaði á ársgrundvelli að vera komin með jafnlaunavottun. Samkvæmt reglugerð nr. 1030/2017 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana voru sett fjögur tímamörk er varða jafnlaunavottun. Þessi tímamörk miðuðu að stærð fyrirtækja, þ.e. hve margt starfsfólk starfaði að jafnaði á ársgrundvelli hjá þeim. Fyrstu tímamörkin voru 31. desember 2019 og voru fyrir aðila með 250 eða fleiri í starfi. Síðustu tímamörkin eru, eins og áður segir, 31. desember 2022 og miðar við starfsemi með 25 eða fleiri.

Við erum að vanda okkur, hvað ef við viljum ekki fá jafnlaunavottun?

Flestir aðilar telja sig taka góðar og málefnalegar ákvarðanir þegar kemur að launasetningu. Það hefur þó komið á daginn, að  víðsvegar hefur leynst töluverður launamunur á milli kynja. Með því að út búa jafnlaunakerfi þar sem verklag í tengslum við launaákvarðanir eru formfestar hafa miklar og mælanlegar framfarir átt sér stað.

Mörgum hefur komið á óvart að hjá sér leynist kynbundinn launamunur, þó það hafi ekki verið ætlunin. Jafnlaunavottun hjálpar okkur að koma betra lagi á launaákvarðanir og að þær séu teknar á málefnalegum grundvelli.

Jafnréttisstofa hefur heimild til þess að beita dagssektum, upp að 50.000 kr. á dag, þar til jafnlaunavottun er í húsi. Jafnréttisstofa hefur ekki byrjað að beita þeirri heimild. Þess má vænta að þegar fram í sækir muni Jafnréttisstofa byrja að beita þeirri heimild.

Jafnréttisstofa hefur sýnt mikinn samstarfsvilja og þó áminningar séu sendar þeim aðilum sem eiga að vera komin með jafnlaunavottun, hefur verið nægjanlegt að sýna aðilum fram á að innleiðing jafnlaunakerfis til jafnlaunavottunar sé hafið.

Hvernig fæ ég jafnlaunavottun?

Til að byrja með þarf að útbúa jafnlaunakerfi sem uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST85:2012. Í staðlinum eru gerðar kröfur um að verklagi, sem kemur í veg fyrir kynbundinn launamun, sé fylgt þegar kemur að launaákvörðunum þeirra sem sinna sömu eða jafnverðmætum störfum.

Verklagið þarf að skjala, þ.e. það þarf að skrifa niður hvernig við uppfyllum kröfur staðalsins.

Að lokum þarf svo að sannreyna að skjölin endurspegli verklagið.

Annars vegar þurfa aðilar að staðfesta það sjálf með innri úttektum, hins vegar eru það ytri úttektaraðilar sem koma og staðfesta að verklagið uppfylli kröfur staðalsins og að jafnlaunakerfið sé virkt.

Það er þessi ytri úttektaraðili sem mælir með við Jafnréttisstofu að aðilar hljóti jafnlaunavottun.

Jafnlaunavottun gildir í 3 ár í senn og þá þarf að taka út allt jafnlaunakerfið. Ytri vottunaraðilar mæta þó einnig árlega til þess að tryggja að jafnlaunakerfinu sé viðhaldið og það lifandi.

Hver er ábati þess að vera með jafnlaunavottun?

 Það eru margir kostir við það að fá jafnlaunavottun.

Jafnlaunavottun og virkt jafnlaunakerfi veitir okkur staðfestingu á því að við séum að gera vel, að við séum að taka launaákvarðanir sem koma í veg fyrir kynbundinn launamun og að við séum að taka launaákvarðanir á málefnalegum forsendum.

Jafnlaunavottun vekur einnig traust starfsfólks á því hvernig launaákvarðanir eru teknar.

Jafnlaunavottun veitir okkur ramma og viðmið til þess að taka upplýstar og vel grundaðar ákvarðanir.

Hvað er jafnlaunastaðfesting?

Jafnlaunastaðfesting er leið sem fyrirtæki sem eru með 25-49 starfandi (að jafnaði á ársgrundvelli) geta valið að fara í stað þess að fá jafnlaunavottun.


Kröfurnar eru ekki eins ítarlegar og gerðar eru til þess að hljóta jafnlaunavottun. Mikilvægt er að koma upp jafnlaunakerfi sem uppfylla kröfur um jafnlaunastaðfestingu (8. gr. Laga 150/2020 um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna). Jafnréttisstofu eru send gögn sem staðfesta og sýna fram á hvernig kröfunum er mætt og Jafnréttisstofa staðfestir svo hvort hún veiti staðfestinguna.

Staðfestingin er endurnýjuð á 3ja ára fresti.

Með jafnlaunastaðfestingu fæst ekki heimild til þess að nota jafnlaunamerkið í tengslum við rekstur fyrirtækisins.

Fjölgi starfsfólki þannig að það séu 50 eða fleiri sem starfa hjá þeim að jafnaði á ársgrundvelli, þarf fyrirtækið að öðlast jafnlaunavottun.

Hvað gerir Justly Pay fyrir okkur?

Justly Pay er lausn sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að byggja upp jafnlaunakerfi sem mætir kröfum ÍST85:2012 jafnlaunastaðlinum. Þegar uppsetningarferli Justly Pay er lokið fá fyrirtæki og stofnanir gæðaskjöl sem mæta kröfum staðalsins, vefeyðublað til þess að taka á móti og vinna úr erindum er varða jafnlaunakerfið og úttektaráætlun sem er undirstaða þess að fá og viðhalda vottað jafnlaunakerfi.

Justly Pay getur stytt innleiðingarferli jafnlaunakerfis og leiðina að jafnlaunavottun svo um munar. Það er tímafrekt og erfitt að skrifa skjöl sem mæta kröfum staðalsins en einfalt að aðlaga skjöl sem þegar eru til að daglegum rekstri.