Tíminn er runnin út fyrir flest 

Nú um áramót rann út sá frestur sem fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 í starfi höfðu til þess að ná sér í jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu. Þetta þarf ekki að þýða óþarfa stress, svefnleysi hjá framkvæmdastjórum eða starfsfólki í mannauðsdeildum. Alls ekki. Það er búið að búa til lausn sem getur hjálpað þér.

Þegar neyðin er stærst er hjálpin oftast næst 

Justly Pay er lausn sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að byggja upp jafnlaunakerfi sem mætir kröfum ÍST85:2012 jafnlaunastaðalsins. Þegar uppsetningarferli Justly Pay er lokið fá fyrirtæki og stofnanir gæðaskjöl sem mæta kröfum staðalsins, vefeyðublað til þess að taka á móti og vinna úr erindum er varða jafnlaunakerfið og úttektaráætlun sem er undirstaða þess að fá og viðhalda vottuðu jafnlaunakerfi. 

Það reynist mörgum erfitt að hefja ferli til jafnlaunavottunar, það er tímafrekt og flókið verk að skrifa skjöl sem mæta kröfum jafnlaunastaðalsins. Þess vegna inniheldur Justly Pay grunn af skjölum sem mæta kröfunum en er um leið hægt að aðlaga að daglegum rekstri fyrirtækja og stofnana. Tíminn fer því ekki í að finna út hvað gæti mögulega staðið í skjölunum, heldur breyta eða bæta texta sem þegar er til. 

Þessi aðferðafræði styttir og einfaldar vinnuna sem almennt fer í að byggja upp grunn að jafnlaunakerfi. Þá er fyrr hægt að fara í hefðbundin verk jafnlaunakerfisins, eins og að sinna úttektum, launagreiningum eða að starfaflokka. 

Hvað er jafnlaunastaðfesting? 

Jafnlaunastaðfesting er leið sem fyrirtæki sem eru með 25-49 starfandi, að jafnaði á ársgrundvelli, geta valið að fara í stað þess að fá jafnlaunavottun.
 
Kröfurnar eru ekki eins ítarlegar og gerðar eru til þess að hljóta jafnlaunavottun. Mikilvægt er að koma upp jafnlaunakerfi sem uppfylla kröfur um jafnlaunastaðfestingu (8. gr. laga 150/2020 um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna). Jafnréttisstofu eru send gögn sem staðfesta og sýna fram á hvernig kröfunum er mætt og Jafnréttisstofa staðfestir svo hvort hún veiti staðfestinguna. 

Staðfestingin er endurnýjuð á 3ja ára fresti en með jafnlaunastaðfestingu fæst ekki heimild til þess að nota jafnlaunamerkið í tengslum við rekstur fyrirtækisins. Fjölgi starfsfólki þannig að það séu 50 eða fleiri sem starfa hjá þeim að jafnaði á ársgrundvelli, þarf fyrirtækið að öðlast jafnlaunavottun. 

Hvenær eigum við að vera komin með vottun? 

Samkvæmt lögunum eiga allar rekstrarheildir (fyrirtæki og stofnanir) sem eru með 25 eða fleiri í starfi að fá jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu. 

Þann 31. desember 2022 eiga allir aðilar á markaði sem hafa 50 eða fleiri starfandi að jafnaði á ársgrundvelli að vera komin með jafnlaunavottun. Samkvæmt reglugerð nr. 1030/2017 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana voru sett fjögur tímamörk er varða jafnlaunavottun. Þessi tímamörk miðuðu að stærð fyrirtækja, þ.e. hve margt starfsfólk starfaði að jafnaði á ársgrundvelli hjá þeim. Fyrstu tímamörkin voru 31. desember 2019 og voru fyrir aðila með 250 eða fleiri í starfi. Síðustu tímamörkin eru, eins og áður segir, 31. desember 2022 og miðar við starfsemi með 25 eða fleiri. 

Kristín Hrefna Halldórsdóttir, forstöðumaður gæða- og innkaupalausna hjá Origo